Skýrsla yfirstjórnar

Árið 2016 hélt yfirstjórn 21 fund, en þar að auki voru sérstakir vinnufundir þar sem unnið var að stefnumótunar- og skipulagsmálum. Einnig voru haldnir sex fundir í verkefnastofu til að fylgja eftir lykilverkefnum með ábyrgðarmönnum þeirra. Hvert svið heldur síðan sérstaklega utan um verkefni sín með verkefna- og töflufundum. Nokkrum mikilvægum verkefnum sem unnið hefur verið að á undanförnum árum var lokið á árinu, eins og fram kemur hér á eftir. Þá fékk Hagstofan ytri vottun á stjórnkerfi upplýsingaöryggis auk þess sem gæðakerfið var fest í sessi. Áætlanagerð ríkisins hefur breyst talsvert með nýjum lögum um opinber fjármál. Á árinu var unnið eftir hinum nýju lögum að stefnumörkun og markmiðum fyrir árið 2017 og næstu fjögur ár þar á eftir.

Málefni Hagstofunnar falla undir málefnasviðið grunnskrár og upplýsingamál, ásamt þremur öðrum verkefnum. Að stefnumörkun málefnasviðsins komu þrjú ráðuneyti. Verður að telja að nýju lögin séu mjög til bóta við stefnumörkun og sjá stofnanir nú lengra fram í tímann við áætlanagerðina en áður. Málefni Hagstofu Íslands hafa undanfarin fjögur ár heyrt undir forsætisráðuneytið, en færast til fjármála- og efnahagsráðuneytis í upphafi árs 2017. Árið 2013 voru málefni Hagstofu flutt frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu til forsætisráðuneytis, en þar áður var Hagstofan á málefnasviði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og þar áður undir forsætisráðuneyti. Á innan við tíu árum hafa málefni Hagstofunnar ítrekað verið flutt á milli ráðuneyta. Hefur það valdið erfiðleikum við stefnumörkun og áætlanagerð og valdið óvissu þar sem í sífellu þarf að kynna stöðu mála fyrir nýjum aðilum og mynda nýja tengiliði innan stjórnsýslunnar. Samstarf við embættismenn þessara ráðuneyta hefur verið með ágætum og ráðuneytin lagt sig fram við að kynna sér málefni Hagstofunnar. Verður hér á eftir farið yfir helstu verkefni ársins 2016.

Rannsóknarráð

Í febrúar var samþykkt rannsóknastefna fyrir Hagstofuna og um leið tók til starfa rannsóknarráð stofnunarinnar. Markmiðið er að stuðla að framförum í aðferðafræði og efla rannsóknir og nýsköpun í hagskýrslugerð. Einn liður í því er að gera sérfræðingum stofnunarinnar kleift að gera eigin greiningar og rannsóknir á gögnum Hagstofunnar og birta opinberlega undir ritröðinni greinargerðir. Eru greinargerðir aðskildar annarri útgáfu Hagstofunnar og eru sjónarmið sem þar koma fram viðkomandi höfunda, en ekki endilega Hagstofunnar. Að auki kemur rannsóknarráð að rannsóknarsamstarfi milli Hagstofunnar og utanaðkomandi sérfræðinga.

Gögn úr kassakerfum

Í apríl voru í fyrsta sinn notuð gögn sem fengin eru beint úr kassakerfum verslana við verðmælingar á mat- og dagvöru í verðvísitölu neysluverðs. Með tilkomu rafrænu gagnanna fást mun örari og ýtarlegri upplýsingar um verðbreytingar en áður.

Samstarfssamningur við Félags- og mannvísindadeild HÍ

Hagstofan og Félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands gerðu með sér samstarfssamning í maí með það að markmiði að auka samstarf á sviði rannsókna. Með samningnum gefst Félags- og mannvísindadeild kostur á að veita nemendum í meistaranámi tækifæri til að vinna lokaverkefni í samstarfi við Hagstofuna.

Undirskrift samnings við félags- og mannvísindadeild HÍ
Daði Már Kristófersson forseti sviðsins og Helgi Gunnlaugsson forseti Félags- og mannvísindadeildar undirrituðu samninginn og Ólafur Hjálmarsson hagstofustjóri fyrir hönd Hagstofunnar. Aðrir viðstaddir undirskriftina voru fyrir hönd Hagstofunnar Hrafnhildur Arnkelsdóttir sviðsstjóri, Ólafur Arnar Þórðarson starfsmannastjóri og Lydía Ósk Ómarsdóttir frá Rannsóknaþjónustu. Fyrir hönd Félags- og mannvísindadeildar voru viðstödd Stefán Hrafn Jónsson prófessor, sem jafnframt verður tengiliður deildarinnar við Hagstofuna, og Brynhildur L. Björnsdóttir, deildarstjóri Félags- og mannvísindadeildar Háskóla Íslands. Ljósmyndin er birt með góðfúslegu leyfi Háskólans.

Samningur um rafrænt rannsóknaumhverfi

Hagstofan samdi við Nýherja í maí um smíði á rafrænu rannsóknaumhverfi sem notað verður til þess að veita rannsakendum aðgang að örgögnum til vísindarannsókna. Er miðað við að Hagstofan útbúi svonefndar sýndartölvur í skýjaumhverfi og setji inn rannsóknagögn þar sem vísindamenn vinni úr þeim niðurstöður án þess að ógna persónuverndarsjónarmiðum. Markmiðið er að auka þjónustu við rannsakendur og bæta upplýsingaöryggi.

Fyrirtækjatölfræði

Ný tölfræði um rekstur og efnahag fyrirtækja var gefin út á árinu. Birtar voru upplýsingar bæði á föstu og breytilegu verðlagi fyrir árin 2002–2015 samkvæmt ÍSAT2008 atvinnugreinaflokkuninni. Bæði voru birtar sundurliðaðar upplýsingar eftir atvinnugreinum og samandregnar upplýsingar, byggðar á erlendri forskrift um atvinnugreinahópa eins og ferðaþjónustu og skapandi greinar.

Ný skammtímatölfræði um fjölda launagreiðenda og launþega eftir atvinnugreinum var birt á árinu. Er hagvísirinn uppfærður mánaðarlega, um 40 dögum eftir lok viðmiðunartímabils. Þessar upplýsingar eru mikilvægar og eiga að gefa góða mynd af raunþróun atvinnugreina.

Áframhaldandi þróun og uppbygging fyrirtækjaskrár til hagskýrslugerðar hefur gert kleift að birta mun meiri sundurliðun eftir atvinnugreinum, bæði í skammtímatölum um veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum og fjölda launagreiðenda og árstölum um rekstur og efnahag fyrirtækja.

Gæðamál

Lögð var áhersla á samstarf við notendur í samræmi við nýja skilgreiningu notendahópa. Haldnir voru fimm fundir með notendahópum. Að auki var haldinn fundur með Ráðgjafarnefnd Hagstofu Íslands um aðferðafræði. Á notendafundum eru notendur hagtalna spurðir um það sem betur má fara í hagskýrslugerðinni og óskað eftir að þeir forgangsraði umbótahugmyndum. Forgangsröðun notenda er notuð innan Hagstofunnar við ákvörðun á umbótaverkefnum. Hafin var skráning á atvikum (atvik er þegar eitthvað fer öðruvísi en til stóð) og hafa skráð atvik verið rýnd á fundum gæða- og öryggisráðs. Gerðar voru innri úttektir og rýni á verklagi og verklagsreglum. Það hefur bæði verið gert í tengslum við atvikaskráningu og eins hafa margar af helstu hagtölum stofnunarinnar verið teknar til sjálfstæðrar skoðunar.

Vinnslukerfi þjóðhagsreikninga endurskoðað

Endurskoðun stendur nú yfir á vinnslukerfi þjóðhagsreikninga og aðlögun gagnagrunna og vinnsluaðferða með tilliti til krafna um aukið gagnaöryggi og aukin gæði. Fyrir liggur að sú vinna mun taka töluverðan tíma og ná til allra þátta í vinnsluferli þjóðhagsreikninga. Þeir verkþættir sem lengst eru á veg komnir snúa að notendum, sem í auknum mæli munu fá beinan aðgang að niðurstöðum þjóðhagsreikninga. Samhliða því er unnið að endurbótum á framleiðslu- og ráðstöfunaruppgjörum og að innbyrðis samræmingu uppgjörsaðferða.

Tölfræði um framleiðni

Unnið hefur verið að tölfræði um fjölda starfandi og vinnustunda eftir atvinnugreinum í samræmi við þjóðhagsreikningastaðla. Verkefnið er langt komið og munu niðurstöður úr því verða notaðar til að meta framleiðni vinnuafls á Íslandi auk þess að svara þörfum vegna útreikninga launakostnaðar.

Hagstofan fær viðurkenningu frá Vinnumálastofnun

Á ársfundi Vinnumálastofnunar í maí var Hagstofunni veitt viðurkenning fyrir gott samstarf og sveigjanleika í samskiptum „sem er til fyrirmyndar þegar skapa þarf starfstækifæri fyrir fólk með mismunandi starfsgetu“.

Ólafur Arnar Þórðarson tekur við viðurkenningu Vinnumálastofnunar
Ólafur Arnar Þórðarson, starfsmannastjóri, tók við viðurkenningunni fyrir hönd Hagstofunnar. Myndin er fengin frá Vinnumálastofnun.

Meðallaun á íslenskum vinnumarkaði

Birtar voru í fyrsta sinn upplýsingar um meðallaun eftir starfi og kyni fyrir vinnumarkaðinn í heild sinni. Um er að ræða mikilvægan áfanga enda hafa aldrei legið fyrir upplýsingar af þessu tagi hérlendis. Jafnframt voru meðallaun starfsstétta birt, annars vegar fyrir atvinnugreinar þvert á íslenskan vinnumarkað, hins vegar fyrir ólíka hluta vinnumarkaðarins, þ.e. fyrir launamenn á almennum vinnumarkaði, ríkisstarfsmenn og starfsmenn sveitarfélaga. Niðurstöður byggjast á samræmingu gagna með tilliti til starfa og atvinnugreina sem unnið hefur verið að á undanförnum árum.

Aukin tíðni á upplýsingum um launaþróun

Til að koma á móts við þarfir notenda um aukna tíðni á upplýsingum um launaþróun hóf Hagstofan að birta sundurliðaðar upplýsingar um mánaðarlega launaþróun einstakra hópa á íslenskum vinnumarkaði í stað ársfjórðungslega eins og áður. Tímaröðin nær aftur til ársins 2015 og verður framvegis viðhaldið mánaðarlega tæplega 90 dögum eftir lok viðmiðunarmánaðar. Heildarvísitala verður áfram birt rúmlega 20 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Birting á sundurliðun á launavísitölu kemur í staðinn fyrir vísitölu launa og verður þeirri tímaröð hætt.

Evrópsk rannsókn á samsetningu launa

Gögnum úr rannsókn á samsetningu launa (e. Structure of Earnings Survey) fyrir viðmiðunarárið 2014 var skilað til Eurostat á árinu. Um er að ræða viðamikla rannsókn á launum einstaklinga.

Tekjur einstaklinga eftir sveitarfélögum

Framboð á upplýsingum um tekjur einstaklinga var aukið enn frekar með birtingu talnaefnis um tekjur einstaklinga árin 1990–2015 skipt eftir sveitarfélögum og kyni annars vegar samkvæmt sveitarfélagaskipan hvers árs og hins vegar sveitarfélagaskipan eins og hún var 1. janúar 2016. Um er að ræða heildartekjur, atvinnu-, fjármagns- og ráðstöfunartekjur ásamt öðrum tekjum og sköttum. Niðurstöður byggjast á framtölum einstaklinga sem skattskyldir eru hér á landi og skilað hafa framtali til Ríkisskattstjóra.

Heilbrigðismál

Gögnum vegna evrópsku heilsufarsrannsóknarinnar (e. European Health Interview Survey) var skilað til Eurostat á árinu en um er að ræða rannsókn sem nær yfir heilsufar, notkun á heilbrigðisþjónustu, áhrifaþætti heilsufars og félags- og lýðfræðilega þætti. Nær hún til 15 ára einstaklinga og eldri sem búa á einkaheimilum. Niðurstöður rannsóknarinnar gera notendum kleift að draga ályktanir um samspil þessara þátta og bera saman við önnur lönd á Evrópska efnahagssvæðinu. Hagtölugerð um almenn heilbrigðismál var með hefðbundnum hætti. Birtar voru upplýsingar um mat einstaklinga á eigin heilsufari og hversu algengt væri að einstaklingar létu vera að fara til tannlæknis eða læknis þó að þörf væri á því.

Kosningaskýrslur

Birtar voru kosningaskýrslur um forsetakjör 25. júní 2016 og alþingiskosningar 29. október 2016. Jafnframt voru birtar upplýsingar um kosningaþátttöku eftir aldri byggðar á sérstakri gagnasöfnun um það efni.

Félagsvernd og félagsvísar

Birtar voru upplýsingar um félagsvernd þar sem greint var frá þjónustu sveitarfélaga við einstaklinga með fötlun og hverjir væri móttakendur félagslegrar aðstoðar. Jafnframt var unnið að gerð og framþróun félagsvísa þar sem birtar voru niðurstöður um hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum. Unnið var að tillögu um norræna félagsvísa á samstarfsvettvangi norræna ráðherraráðsins. Niðurstöður voru gefnar út í skýrslu og kynntar á ráðstefnu haustið 2016.

Hagstofustjórafundur EFTA

Hagstofustjórafundur EFTA var haldinn á Íslandi í byrjun júní. Fyrir fundinn komu sérfræðingar frá tölfræðiskrifstofu EFTA í heimsókn og héldu kynningarfund með starfsmönnum Hagstofunnar. Þar var meðal annars fjallað um stofnanakerfi evrópska tölfræðisamstarfsins. Í kjölfarið funduðu hagstofustjórar og fjölluðu um sameiginleg hagsmunamál EFTA-ríkjanna í tölfræðisamstarfinu og ýmis lagamál.

Vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis

Í júlí hlaut Hagstofan vottað stjórnkerfi upplýsingaöryggis í samræmi við alþjóðlega staðalinn ISO 27001. Nær vottunin til allrar starfsemi stofnunarinnar og verður stjórnkerfið tekið út tvisvar á ári af viðurkenndum vottunaraðila. Þess má geta að ákveðið hefur verið að gerð verði krafa um slíka vottun hagstofa sem taka þátt í evrópska hagskýrslusamstarfinu.

Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, tekur við vottun stjórnkerfis upplýsingaöryggis
Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri, tekur við vottun stjórnkerfis upplýsingaöryggis frá Árna H. Kristinssyni, framkvæmdastjóra BSI á Íslandi

Innleiðing gerða Evrópusambandsins

Í júlí kom út reglugerð í 176 töluliðum þar sem jafnmargar gerðir Evrópusambandsins á sviði hagskýrslugerðar eru formlega innleiddar í íslenskan rétt. Gerðirnar hafa verið innleiddar í EES-samninginn frá gildistöku hans og hafa því lagalegt gildi hér á landi. Með reglugerðinni er vísað í viðkomandi reglugerð og tryggt að hún sé hluti af íslenskum rétti. Verður reglugerðin endurskoðuð reglulega og bætt við nýjum gerðum auk þeirra sem enn bíða þýðingar.

Norræna tölfræðingamótið

Góður hópur starfsmanna Hagstofunnar sótti norræna tölfræðingamótið í Stokkhólmi 22.–24. ágúst. Mótið er haldið á þriggja ára fresti og skiptast Norðurlöndin á að taka að sér hlutverk gestgjafa. Tölfræðingamótið er mikilvægur vettvangur fyrir sérfræðinga til að skiptast á skoðunum, kynna tölfræðileg úrlausnarefni og læra af norrænum kollegum sínum. Dagskrá mótsins var fjölbreytt að venju, en 12 sérfræðingar frá Hagstofu Íslands heldu níu fyrirlestra á mótinu um áhugaverð verkefni eða rannsóknir sem þeir hafa unnið að.

Þátttakendur Hagstofu Íslands á norræna tölfræðingamótinu
Þátttakendur Hagstofu Íslands á Norræna tölfræðingamótinu

Norrænir fundir

Í maí mættu um 20 manns á fund hagstofa Norðurlanda um landbúnaðartölfræði sem haldinn var í húsakynnum Hagstofunnar. Í september var haldinn norrænn fundur um hagskýrslugerð um rannsóknir og þróun. Fjallað var um aðferðafræði við rannsóknina og nýja reglugerð þar sem skilgreiningar hafa verið endurskoðaðar.

Þátttakendur á norrænum fundi um landbúnað
Norrænn fundur um landbúnaðartölfræði haldinn á Hagstofunni 26. og 27. maí 2016. Ljósmyndari: Heiðrún Sigurðardóttir
Þátttakendur á norrænum fundi um rannsóknir og þróun
Þátttakendur á norrænnum fundi um aðferðafræði í rannsóknum og þróun. Fundinn sóttu sérfræðingar í þessum efnum frá norrænu hagstofunum. Ljósmyndari: Magnús Kári Bergmann

Skekkja í vísitölu neysluverðs

Undir lok september kom í ljós villa í vísitölu neysluverðs vegna hliðrunar á húsnæðislið vísitölunnar. Í samræmi við meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð var brugðist við með því að tilkynna um villuna og skýringar gefnar á áhrifum hennar á vísitöluna. Í kjölfarið var í samræmi við gæðastefnu farið ýtarlega yfir vinnslu vísitölunnar og gerðar ráðstafanir til að draga úr líkum á villum.

Evrópski hagtöludagurinn

Evrópski hagtöludagurinn var haldinn í fyrsta sinn 20. október, en áður hefur verið haldið upp á alþjóðadag hagtalna á þessum degi. Hagstofan vakti athygli á evrópskri hagskýrslugerð með því að birta svonefnda lífsgæðavog. Þar gátu notendur borið lífsgæði sín saman við aðra Evrópubúa. Var vogin byggð á samræmdri rannsókn evrópsku hagstofanna um lífskjör í Evrópu.

Lífsgæðavogin

Meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð

Í desember var birt ný auglýsing með endurskoðuðum meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð. Liggja reglurnar til grundvallar gæðakerfi Hagstofunnar og eru þær mikilvægur hluti af gæðastarfi í Evrópu. Farið er yfir hvernig reglunum er hlítt í gæðaúttekt evrópska tölfræðisamstarfsins sem fer fram á fimm ára fresti.

Útgáfu Landshaga hætt

Hagstofa Íslands hefur gefið út tölfræðihandbókina Landshagi í aldarfjórðung. Var tölfræðihandbókin lengst af gefin út á prenti en einungis rafrænt árið 2015. Í ljósi lítillar eftirspurnar var ákveðið að hætta útgáfu bókarinnar, en þess í stað að uppfæra upplýsingar sem þar mátti finna í veftöflum á vef Hagstofunnar. Einnig er nú unnið að því að uppfæra helstu tímaraðir sem voru birtar í Hagskinnu á sínum tíma og bæta við tímaröðum. Verða þær upplýsingar birtar á vef Hagstofunnar árið 2017.