Undanfarin ár hefur verið vaxandi umræða um hvernig best sé að mæla hagsæld. Alþjóðastofnanir á borð við Eurostat, OECD og Sameinuðu þjóðirnar hafa beitt sér fyrir því að nota fleiri mælikvarða en hagvöxt til að sýna fram á hagsæld. Í allri umræðu hefur hagvöxtur, það er vöxtur landsframleiðslu, verið mest áberandi og það er sá mælikvarði sem jafnan hlýtur mesta umfjöllun. Ekki er um það deilt að hagvöxtur er mikilvægur til að ná fram öðrum markmiðum og er því mikilvægur mælikvarði, þó að hann sé ekki markmið í sjálfu sér. Hagskýrslugerð hefur tekið mið af þessari umræðu og þörfum. Eru meðal annars gefnar út hagtölur um tekju- og eignadreifingu, menntun, heilsufars- og félagsmál til að varpa ljósi á hagsæld ríkja og stöðu ólíkra hópa innan hvers ríkis. Þess má geta að Hagstofa Íslands og velferðarráðuneytið gerðu með sér samning árið 2012 um útgáfu félagsvísa með ýmsum mælikvörðum á þáttum sem hafa áhrif á velferð og lýsa stöðu einstakra hópa samfélagsins. Einnig má nefna í þessu sambandi mælikvarða Sameinuðu þjóðanna vegna markmiða um sjálfbæra þróun.
Um nánast allan hinn vestræna heim hefur verið rætt um hvernig tekjur og eignir skiptast milli hópa, um menntun, heilbrigðis- og umhverfismál. Mikilvægt er fyrir þá umræðu að greina hvernig t.d. tæknibreytingar og alþjóðaviðskipti hafa áhrif á þessa þætti. Háskólar og rannsóknarstofnanir fjalla um þau mál og þurfa til þess gögn og hlutlausar upplýsingar. Það er hlutverk hagstofa að safna og miðla hlutlausum upplýsingum um það efni sem þörf er á, en nauðsynlegt er að forgangsraða verkefnum. Sú forgangsröðun fer að mestu fram á alþjóðavettvangi þar sem einnig fer fram vönduð vinna við að staðla aðferðir til að tryggja að hagtölur ólíkra landa séu samanburðarhæfar. Síðustu ár hafa hagskýrslur um heilbrigðis-, félags- og umhverfismál verið í brennidepli á hinu alþjóðlega sviði.
Nokkuð hefur borið á að umræða um málefni sem brenna á almenningi byggist ekki á staðreyndum og að niðurstöður hagskýrslna séu túlkaðar í þágu málstaðar eða skoðunar þeirra sem um málið fjalla hverju sinni. Hagstofum er vandi á höndum við þær aðstæður þar sem í alþjóðlegum leiðbeiningum er gert ráð fyrir að þær bregðist við röngum eða villandi túlkunum á hagtölum sem þær birta. Hefur einkum reynt á það í umfjöllun um umhverfismál, búferlaflutninga og flóttamenn þar sem gætir sterkra sjónarmiða, hvort sem þau eru meðvituð eða ómeðvituð. Varfærnisleg viðbrögð við slíkri túlkun hafa vakið hörð viðbrögð hjá þeim sem sjá sér hag af umræðunni. Er það umhugsunarefni og sýnir að leggja verður meiri áherslu á að varpa ljósi á þessa málaflokka með ítarlegri upplýsingum en nú liggja fyrir.
Ekki verður að öllu leyti komið í veg fyrir villur við framleiðslu hagtalna, jafnvel þótt allt sé reynt til að hindra þær. Þegar villur koma upp eru þær leiðréttar við fyrsta mögulega tækifæri og fréttatilkynning send út um leiðréttinguna og áhrif hennar á fyrri útgáfur. Mismunandi er hve mikil áhrif villur hafa, sumar nánast engin, en aðrar geta haft áhrif á nær öll heimili og fyrirtæki í landinu. Síðsumars uppgötvaðist villa í vísitölu neysluverðs sem hafði áhrif á verðtryggðar fjárskuldbindingar. Brugðist var við henni í samræmi við meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð, leiðréttingum komið á framfæri og gripið til viðeigandi ráðstafana. Þrátt fyrir gæðakerfi og aukna sjálfvirkni verða óhjákvæmilega villur, jafnvel við vinnslu þeirra afurða sem Hagstofan neytir allrar orku í að tryggja að séu réttar. Það eru meiri líkur á að villur uppgötvist þegar fyrir er skipulegt gæðakerfi og vinnsluferlin rýnd. Það hvernig brugðist er við skekkjum í útgefnum hagtölum segir mikið um gæði hagtalna. Sérstakur kafli er í ársskýrslunni þar sem fjallað er nánar um gæðamál.
Erfitt er að ráða í framtíðina en þó er líklegt að næstu áratugir verði kenndir við vélvæðingu og gervigreind, ef fram fer sem horfir. Örar framfarir eru á þessu sviði, nú þegar er unnt að fá staðlaðan hugbúnað sem getur lært að leysa tiltölulega flókin verkefni og er tæknin víða notuð. Enginn vafi er á því að hér felast tækifæri til að auka framleiðni og létta vinnu við hagskýrslugerð. Á það einkum við um vinnslu gagna úr stórum skrám, svo sem við hreinsun og leiðréttingu gagna og við breytingar á flokkunarkerfi. Síðar verður hægt að vélvæða greiningar og skýrsluskrif í meira mæli. Hér verður Hagstofan að hafa frumkvæði að innleiðingu á nýjum aðferðum við úrlausn verkefna og fylgjast vel með tækniframförum. Kallar það á aukna áherslu á öflun þekkingar í upplýsingatækni og samstarf við þá rannsóknaraðila og háskóla sem standa framarlega á þessu sviði.
Ótti við áhrif vélvæðingar og sjálfvirkni er að mestu óþarfur, sum verkefni verða auðveldari úrlausnar og önnur ný koma í staðinn. Gæta verður að persónuverndarsjónarmiðum og nýta tæknina eingöngu til að leysa lögbundin verkefni og skuldbindingar. Störf munu breytast og er því mikilvægt að standa að öflugri sí- og endurmenntun til að sem flestir geti tileinkað sér ný vinnubrögð. Kannski má líkja breytingunum við það þegar tölvurnar komu til skjalanna. Áhrifin á hagskýrslugerð voru mikil og gríðarleg aukning varð á afköstum, en á sama tíma jukust kröfur jafnvel enn meir um nýjar upplýsingar og að þær berist sífellt fyrr. Gera má ráð fyrir svipaðri þróun við sjálfvirknivæðingu og að seinni hálfleikur á öld upplýsinganna sé hafinn.
Hagstofur þurfa sífellt að vega og meta annars vegar hve mikið á að leggja í nákvæmni upplýsinga og hins vegar hve fljótt má birta þær. Sumar hagtölur verða að vera nákvæmar þegar þær birtast, en aðrar má birta með fyrirvara og síðan endurskoðaðar í ljósi betri heimilda, að öðrum kosti þættu þær úreltar. Mikilvægt er að notandinn sé upplýstur um þennan mun. Frá upphafi hagskýrslugerðar hefur þetta verið úrlausnarefni og hefur ný tækni stuðlað að bæði meiri nákvæmni og því að hagtölur birtast nú fyrr en áður. Mikilvægi þess að upplýsingar séu sem nákvæmastar og áreiðanlegastar verður seint dregið í efa, einkum á tímum þegar ofgnótt upplýsinga flæðir yfir án þess að heimildir eða lýsingar á gæðum þeirra liggi fyrir. Áhugavert er í því sambandi að lesa orð Þorsteins Þorsteinssonar, hagstofustjóra, í fyrsta hefti Hagtíðinda, fyrsta árgangi, árið 1916:
„Stundum hafa heyrst kvartanir um, að hagskýrslur kæmu seint út, og verður hagstofan að viðurkenna, að æskilegt væri, að þær gætu komið fyr út. En bæði er það, að margt er það, sem tefur fyrir útkomunni, sem engan veginn er á valdi hagstofunnar, og ennfremur telur hagstofan það fyrstu skyldu sína að reyna að gera skýrslurnar svo úr garði, að þær verði sem áreiðanlegastar og rjettastar og sem aðgengilegastar til afnota, því að rjettar skýrslur halda ætíð gildi sínu hvað gamlar sem þær verða, en rangar skýrslur og götóttar eru lítils eða einskis virði, enda þótt þær sjeu glænýjar.“
Þorsteinn segir ennfremur. „En þó að útkomuhraði skýrslnanna sje ekki fyrsta boðorð hagstofunnar, þá er henni samt mjög hugleikið, að skýrslurnar geti sem fyrst orðið kunnar almenningi og að enginn ónauðsynlegur dráttur verði á útkomu þeirra.“
Framangreind orð eiga enn vel við, eitt hundrað árum eftir að þau birtust.
Ólafur Hjálmarsson, hagstofustjóri