Formlegt samstarf við notendur fer fram í nokkrum hópum sem flokkaðir hafa verið eftir hlutverki þessara hópa. Um er að ræða ráðgjafarnefndir, notendahópa og faghópa.
Ráðgjafarnefndum er ætlað að vera Hagstofunni til ráðgjafar í ákveðnum málaflokkum. Í dag eru starfandi þrjár ráðgjafarnefndir: Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs, ráðgjafarnefnd um vinnumarkaðstölfræði og ráðgjafarnefnd um aðferðafræði en henni er ætlað að hvetja til notkunar traustra aðferða í vinnu Hagstofunnar.
Ráðgjafarnefnd um aðferðafræði hélt tvo fundi á árinu. Sem dæmi um viðfangsefni nefndarinnar má nefna gerð aðferðafræðihandbókar Hagstofu Íslands. Þar hefur athyglinni fyrst og fremst verið beint að árstíðaleiðréttingum, hvernig má hindra rekjanleika í útgefnum hagtölum, mat á smáum hópum, skráningu lýsigagna fyrir örgögn, gagnagnótt (big data) og gagnagröft (data mining). Einnig hefur nefndin fjallað um árstíðarleiðréttingar, svarskekkju í úrtaksrannsóknum og hindrun rekjanleika, svo dæmi séu tekin.
Notendahópum er ætlað að greina þarfir og væntingar notenda og eru niðurstöður notendahópa notaðar til að forgangsraða umbótaverkefnum innan Hagstofunnar. Einn nýr notendahópur var stofnaður á árinu en það var notendahópur fjölmiðla. Þá var fulltrúum frá helstu fjölmiðlum, sem nota hagtölur í fréttum og fréttaskýringum, boðið að koma til fundar við stjórnendur á Hagstofunni. Boðaðir voru fulltrúar frá tíu fjölmiðlum en aðeins þrír sáu sér fært að mæta en það voru fulltrúar frá RÚV, 365 og Kjarnanum.
Notendahópar greiningaraðila og rannsóknarsamfélagsins héldu tvo fundi hvor. Áherslur í þessum notendahópum eru ólíkar en eiga það þó sameiginlegt að oftast eru notendur að biðja um fleiri tegundir hagtalna, meira niðurbrot og aukna tíðni. Stefnt er að stofnun fleiri notendahópa á næstu árum.
Faghópar fjalla um ákveðna efnisflokka hagtalna og er ætlað að veita fræðslu og upplýsa notendur um ýmislegt sem tengist hagskýrslugerð tiltekins efnisflokks, svo sem aðferðafræði og lýsigögn. Á þessum fundum gefst notendum kostur á að kafa talsvert djúpt í tæknileg og fræðileg atriði hagskýrslugerðarinnar. Sá faghópur sem virkastur hefur verið á undanförnum árum er faghópur um verðvísitölur.