Afnot af gögnum

Aðilar utan Hagstofunnar fá almennt ekki aðgang að gögnum hennar umfram það sem birt er almenningi og öllum er opið. Rannsakendur geta þó fengið aðgang að trúnaðargögnum Hagstofunnar að ströngum skilyrðum uppfylltum.

Í samræmi við 13. gr. laga um Hagstofu Íslands og opinbera hagskýrslugerð nr. 167/2007 skal Hagstofan stuðla að því að gögn hennar nýtist til tölfræðilegra vísindarannsókna. Á liðnu ári gerði Hagstofan miklar breytingar á afgreiðslu og meðferð umsókna um aðgang að trúnaðargögnum til vísindarannsókna. Þær breytingar voru gerðar til að koma til móts við þarfir og væntingar rannsakenda en Hagstofan er í góðum og tíðum samskiptum við rannsóknarsamfélagið, m.a. með reglulegum fundum með notendahópi þess. Rannsóknarsamfélagið kallaði eftir hraðari afgreiðslu umsókna um aðgang að trúnaðargögnum ásamt skýrari skilyrðum fyrir afgreiðslu og skýrari samskiptaleiðum við Hagstofuna. Afgreiðsluferlum var því breytt í samræmi við þær óskir með góðum árangri.

Helstu breytingar á afgreiðsluferlinu eru þær að gerð voru skýr viðmið um hvaða skilyrði umsóknir þurfa að uppfylla til þess að fást samþykktar. Viðmiðin eru aðgengileg öllum á vef Hagstofunnar. Stofnuð hefur verið rannsóknaþjónusta innan Hagstofunnar sem hefur yfirumsjón með afgreiðslu umsókna og sinnir öllum samskiptum við rannsakendur. Þannig hafa rannsakendur samband við einn starfsmann innan Hagstofunnar sem einfaldar og auðveldar samskipti þeirra við stofnunina. Að auki þjónar rannsóknaþjónustan hagsmunum rannsakenda í umsóknarferlinu með því að aðstoða við gerð umsóknar og við upplýsingagjöf.

Undirskrift samnings við Nýherja
Frá undirritun samnings við Nýherja um gerð rannsóknarumhverfisins Iðunnar. Á myndinni eru frá vinstri: Oddur Ragnar Þórðarson, lausnaráðgjafi miðlægra lausna hjá Nýherja, Ólafur Arnar Þórðarson, starfsmannastjóri Hagstofu Íslands og Elsa Björk Knútsdóttir, sviðsstjóri rekstrarsviðs og fjármálastjóri Hagstofunnar. Myndina tók Heiðrún Sigurðardóttir.

Að lokum hefur verið gerð stórfelld breyting á því hvernig veittur er aðgangur að gögnunum. Hagstofan lét útbúa fyrir sig rannsóknarumhverfi á tölvuskýi sem hefur fengið nafnið Iðunn. Rannsakendur geta tengst Iðunni með fjartengingu í gegnum vafra þar sem þeir fá aðgang að umbeðnum gögnum ásamt tölfræðihugbúnaði. Gögnin fara því aldrei af tölvukerfi Hagstofunnar, heldur geta rannsakendur unnið greiningar með fjartengingu við rannsóknaumhverfið. Með þessu hefur öryggi gagna aukist ásamt því að meiri sveigjanleiki er í afgreiðslu. Með kerfinu er hægt að hindra rekjanleika í niðurstöðum á sama hátt og rekjanleika í trúnaðargögnum áður en rannsakendur fá aðgang að niðurstöðunum.

Samhliða innleiðingu á fyrrgreindum breytingum fjallaði Hagstofan á árinu 2016 um alls 12 beiðnir um aðgang að trúnaðargögnum. Af þeim voru sex samþykktar, einni var hafnað, þrjár fengu annan farveg og tvær eru í afgreiðslu. Á næsta ári er stefnt að því að fjölga umsóknum um aðgang að trúnaðargögnum til vísindarannsókna með kynningu á þjónustunni sem Hagstofan býður rannsakendum.