Hagstofa Íslands hefur á undanförnum árum innleitt meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar en þær eru alls 15. Fyrstu sex fjalla um stofnanaumhverfið, að hagstofur þurfi að vera faglega sjálfstæðar gagnvart stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum, að þær hafi lagaheimildir til gagnasöfnunar, fjárhagslegt bolmagn, skuldbindi sig til stöðugra umbóta með kerfisbundnum hætti, tryggi friðhelgi gagnaveitenda og ástundi óhlutdrægni og hlutlægni. Næstu fjórar meginreglur fjalla um framleiðsluferli hagtalna, að beitt sé traustri aðferðafræði, að gæði hagskýrslugerðar séu tryggð með viðeigandi tölfræðilegum aðferðum, að gagnaveitendum sé ekki íþyngt meira en nauðsynlegt er og að fjármunir séu nýttir af hagkvæmni. Síðustu fimm meginreglurnar fjalla um gæði hagtalna, að þess sé gætt að framleiddar séu hagtölur sem fullnægja þörfum notenda, að þær séu réttar, komi fljótt út og á réttum tíma, séu samræmdar og samanburðarhæfar, að auðvelt sé að nálgast þær og að þær séu skýrar og auðskiljanlegar.
Haustið 2013 komu fulltrúar frá Evrópska hagskýrslusamstarfinu (ESS) og gerðu úttekt á Hagstofu Íslands með tilliti til þessara 15 meginreglna. Niðurstaða þessarar úttektar voru 24 umbótatillögur sem leiddu til umbótaverkefna sem nú er flestum lokið. Nokkrar þessara athugasemda sneru að samstarfi við notendur og fólu í sér að Hagstofan tæki mið af þörfum þeirra í auknum mæli. Brugðist var við þessu með endurskilgreindu hlutverki notendahópa og nýir hópar voru stofnaðir. Endurskilgreindu notendahóparnir byggjast á þeirri hugmynd að flokka notendur hagtalna í hópa svo að í hverjum hópi séu svipaðar þarfir og væntingar til hagskýrslugerðar. Næsta skref er að finna fulltrúa hvers hóps og kanna meðal þeirra hvað megi betur fara í hagskýrslugerðinni. Þetta hefur þegar verið gert á vettvangi greiningaraðila, rannsóknarsamfélagsins og fjölmiðla. Á næstu árum stendur til að fjölga þessum hópum til að ná til fleiri notenda.
Verklagsreglur hafa verið gerðar fyrir allar helstu hagtölur sem framleiddar eru hjá Hagstofunni. Uppsetning þeirra er í samræmi við alþjóðlegt ferlalíkan í hagskýrslugerð sem kallast Generic Statistical Business Process Model (GSBPM). Kortlagning ferla sem gerð er í samræmi við líkanið gerir allan samanburð milli ferla auðveldari, einnig milli landa. Hluti af því verkefni felst í því að meta kostnað við allar afurðir Hagstofunnar.
Hagstofan tekur virkan þátt í samstarfi Evrópuþjóða um gerð hagtalna í gegnum Evrópska hagskýrslusamstarfið. Þetta samstarf skilar sér í betri aðferðum við hagskýrslugerð og meira samræmi milli landa. Meðal annars eru nú innleiddar samræmdar aðferðir við að gæðaprófa gögn sem notuð eru í hagskýrslugerð.
Gæðastefna Hagstofu Íslands byggist á meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð en að auki segir:
Starfsemi Hagstofu Íslands fer fram í vel hönnuðum verkferlum og samkvæmt vönduðum áætlunum sem fylgt er eftir. Mælikvarðar á gæði og aðra mikilvæga þætti starfseminnar eru vel skilgreindir og vandlega er fylgst með árangri. Séu mælingar ekki í samræmi við sett markmið er brugðist við með umbótum á ferlum og verklagi.
Gerð hagtalna á Hagstofu Íslands er í samræmi við vandaðar tölfræðilegar aðferðir sem hafa verið þróaðar hjá stofnuninni og eru sambærilegar við aðferðir hagstofa í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Verklag hefur verið skráð fyrir framleiðsluferli helstu hagtalna í verklagsreglur og eða vinnulýsingar.
Gæðakerfi þurfa að vera þannig úr garði gerð, að vandamál sem upp kunna að koma séu notuð sem uppspretta umbótahugmynda. Þegar niðurstaðan er ekki í samræmi við þau markmið sem sett hafa verið þarf gæðakerfið að virka þannig að brugðist sé við til að bæta ferli, minnka líkur á mistökum og bæta árangur. Mikilvægt er að skapa fyrirtækjamenningu sem styður við umbótastarf og kemur í veg fyrir það að gæðavandamálum sé sópað undir teppi. Aðeins þannig er hægt að gera góða hluti betri og vinna að stöðugum umbótum.